Íslendingaliðið Gummersbach sigraði Veszprém frá Ungverjalandi, 31:29, í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag. Í sama riðli steinlágu Valsmenn, 34:24, fyrir Celje Lasko í Slóveníu.
Celje var yfir í hálfleik, 19:13, og Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals sagði við fréttavef Morgunblaðsins að það hefði verið óþarfi að missa leikinn upp í tíu marka tap í lokin. "Ég hefði verið sáttur við sex marka mun," sagði Óskar Bjarni.
Elvar Friðriksson skoraði mest fyrir Valsmenn, 6 mörk, og Gunnar Harðarson og Hjalti Þór Pálmason gerðu 4 mörk hvor. Ólafur Gíslason átti mjög góðan leik í marki Vals og varði 18 skot.
Róbert Gunnarsson var markahæstur hjá Gummersbach gegn Veszprém ásamt þeim Pungartnik og Zrnic en þremenningarnir gerðu 7 mörk hver. Guðjón Valur Sigurðsson er frá í bili vegna meiðsla. Sverre Jakobsson lék að vanda í vörninni hjá Gummersbach.
Gummersbach, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, er komið með 4 stig, Celje 3, Veszprém 1 en Valur er án stiga eftir tvær umferðir.