„Það er ekkert leyndarmál að við höfum fullan hug á að hafa Alfreð í fullu starfi hjá okkur og höfum leitað leiða til þess. Við vitum jafnframt að Alfreð vill vera þjálfari í þýsku bundesligunni og því hefur hann svarað okkur með skýrum hætti þegar við höfum fært þetta í tal við hann um að koma í fullt starf hjá HSÍ," segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, spurður í frétt götublaðsins Kölner Express þess efnis að HSÍ hafi boðið Alfreð Gíslasyni landsliðsþjálfara fullt starf hjá sambandinu. Það þýddi að hann hætti hjá Gummersbach. Einar segir fréttina hins vegar vera gamla og málið hafi ekki verið fært í tal við Alfreð lengi.
Alfreð segir í frétt Kölner Express að hann hafi ekki áhuga á að taka boði HSÍ. "Ef ég væri sextugur þá væri ég til í að taka boði HSÍ, en ekki nú um stundir," segir Alfreð sem er 48 ára.