Englendingar unnu Skota, 31:20, í Áskorendakeppni karla í handknattleik sem hófst í Lúxemborg í gær, en þjóðirnar hafa til þessa ekki verið á meðal þekktustu handknattleikþjóða Evrópu. Sigur enska landsliðsins var mjög öruggur eins og úrslitin benda til en það var með níu marka forystu í hálfleik, 17:8. Í öðrum leikjum keppninnar í gær unnu gestgjafar Lúxemborgar landslið Íra, 50:22, og Færeyjar lögðu Möltu einnig með miklum mun, 37:18.
Áskorendakeppni landsliða fer nú fram í annað sinn og er keppt í tveimur riðlum að þessu sinni. Tíu þjóðir senda landslið til keppninnar, fjórum fleiri en fyrir tveimur árum þegar mótið fór fyrst fram. Sex þjóðir berjast í Lúxemborg og fjórar, Georgía, Moldavía, Aserbaídsjan og Armenía eigast við í Tbilisi í Georgíu. Keppni þar hefst í dag. Sigurþjóðirnar á hvorum stað mætast í úrslitaleik Áskorendakeppni landsliða sem leikinn verður í Drammen í Noregi 20. janúar á meðan Evrópumeistaramót landsliða fer þar fram. Áfram verður einnig leikið í Lúxemborg í dag en keppninni lýkur á sunnudag en á laugardag í Georgíu. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Englendingar og Skotar mætast í handknattleik. Heimildir eru fyrir a.m.k. tveimur landsleikjum þjóðanna frá árinu 2005. Þá unnu Skotar 20:17 en Englendingar svöruðu fyrir sig með því að snúa taflinu við og vinna nokkrum dögum síðar, 24:18. Englendingar verða sem gestgjafar Ólympíuleikanna árið 2012 að senda handknattleiklið til keppni bæði í karla- og kvennaflokki á leikunum. Af þeim sökum hefur verið reynt að vekja athygli á íþróttinni þar í landi á síðustu árum.