Fyrir neðan allar hellur

Alfreð Gíslason fórnaði oft höndum í leiknum í gærkvöldi.
Alfreð Gíslason fórnaði oft höndum í leiknum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn

„Þessi leikur var skelfilegur af okkar hálfu, sérstaklega í sóknarleiknum fyrstu 20 mínúturnar í síðari hálfleik. Þá var leikur okkar í raun fyrir neðan allar hellur," sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik, eftir sex marka tap fyrir Ungverjum, 17:23, í Laugardalshöll í gærkvöldi. Þetta var fyrri landsleikur þjóðanna en hin síðari verður á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 14 í dag. Alfreð var skiljanlega mjög óhress með framgöngu íslenska landsliðsins í leiknum sem hefur ekki leikið verr í háa herrans tíð.

„Sóknarleikurinn var alltof hægur og fyrirsjáanlegur. Við hreyfðum okkur alltof hægt og voru hreinlega heilalausir við það sem vorum að reyna að gera," sagði Alfreð og var ekkert að spara stóru orðin þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða hans í leikslok í gærkvöldi.

„Þess utan gerðum við alltof mörg mistök sem endaði með að við vorum hættir að sækja á markið. Hægri vængurinn var algjörlega úti allan leikinn í sókninni," sagði Alfreð sem notaði 17 leikmenn í leiknum, þar af voru tveir sem léku sinn fyrsta landsleik; Björgvin Hólmgeirsson og Magnús Stefánsson, auk nokkurra sem eiga fáeina leiki að baki. Alfreð segir þá staðreynd ekki afsaka neitt enda hafi það ekki verið óreyndu mennirnir sem hafi leikið svo illa sem raun bar vitni, heldur þeir sem meiri reynslu hafa. „Stór hluti mistakanna kom frá reyndustu leikmönnum okkar. Ef það hefðu verið nýliðarnir sem klúðruðu leiknum þá væri ég tilbúinn að taka það á mig að vissu leyti en sú var ekki raunin. Hægri vængurinn hjá Ásgeiri og Alexander var slakur og Snorri leikstjórnandi gerði urmul mistaka og hætti í raun að stjórna leik okkar. Heimir kom í hans stað um tíma en lék of hægt.

Á löngum köflum þá léku menn ekki þau leikkerfi sem átti að spila, hreinlega hættu því alveg. Þá skoruðum við ekki nema eitt mark úr hraðaupphlaupi sem er alveg vonlaust."

Alfreð segir að eini ljósi punkturinn við leik íslenska liðsins hafi verið sá að 5/1 vörnin hafi verið góð þann tíma sem hún var spiluð. „Ég varð hins vegar að hætta með hana til þess að gefa fleiri og reynsluminni leikmönnum möguleika. Þá gekk 6/0 vörnin aldrei sem skyldi."

Alfreð segir að í raun geti íslenska landsliðið talist heppið að hafa sloppið við stærra tap í leiknum. „Við verðum að spila mikið mun betur í síðari leiknum á morgun [í dag] í Hafnarfirði, hvort sem það skilar okkur betri úrslitum eða ekki. Menn verða að sýna að þeir séu að spila fyrir íslenska landsliðið, þá má ekki leika af hálfum hug eins og því miður var alltof mikið raunin að þessu sinni. Upp á svona leik megum við ekki bjóða aftur," sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert