Valsmenn hirtu bæði stigin í Safamýrinni

Halldór Sigfússon lék sinn fyrsta leik með Fram í kvöld …
Halldór Sigfússon lék sinn fyrsta leik með Fram í kvöld og sækir hér að marki Valsara. Brynjar Gauti

Valsmenn unnu góðan sigur á Fram í hörkuleik, 27:25, í úrvalsdeild karla í handknattleik en leikur liðanna fór fram í Framhúsinu í Safamýri í kvöld. Valsmenn eru þá komnir með 7 stig eftir jafnmarga leiki og eru áfram í fimmta sæti, og Framarar sitja áfram í fjórða sætinu með 9 stig.

Valsmenn skoruðu fyrsta markið en Fram komst strax yfir og hélt eins til þriggja marka forskoti út hraðan og líflegan fyrri hálfleik. Staðan 15:14 í hálfleik.

Filip Kliszczyk, Stefán Baldvin Stefánsson og Einar Ingi Hrafnsson gerðu 3 mörk hver fyrir Fram í fyrri hálfleik og Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot.

Baldvin Þorsteinsson gerði 4 mörk fyrir Val í fyrri hálfleik, Fannar Friðgeirsson og Arnór Gunnarsson 3 hvor. Ólafur Gíslason varði 11 skot.

Valsmenn náðu síðan forystunni í fyrsta skipti snemma í seinni hálfleik og staðan var 22:21, þeim í hag, um hann miðjan. Þá hafði Fannar Friðgeirsson skorað 6 mörk fyrir Val og Jóhann Gunnar Einarsson 5 mörk fyrir Fram.

Valsmenn létu forystuna ekki af hendi eftir þetta og innsigluðu sigurinn með sínu 27. marki þegar hálf mínúta var eftir af leiknum.

Fannar Friðgeirsson var markahæstur Valsmanna með 7 mörk og Arnór Gunnarsson gerði 6. Hjá Fram var Jóhann Gunnar Einarsson með 5 mörk, Filip Kliszczyk 4 og Einar Ingi Hrafnsson 4 mörk.

Nánar um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert