Handknattleiksmaðurinn Sigurður Eggertsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Íslandsmeistara Vals. Sigurður flutti sig um set í sumar og fór í raðir danska úrvalsdeildarliðsins Skanderborg á Jótlandi. Honum líkaði ekki vistin og ákvað fyrir skömmu að snúa á ný heim til Íslands og þá í raðir Vals sem hann hefur leikið með frá barnsaldri. Sigurður var í Íslandsmeistaraliði Vals í vor og átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið þegar hann hélt til Danmerkur.
Þar sem lokað var fyrir félagsskipti hér heima um síðustu mánaðarmót verður ekki af formlegum skiptum Sigurðar fyrr en í byrjun næsta árs þegar opnað verður fyrir félagsskipti á nýjan leik. Hann verður því ekki löglegur með liðinu fyrr en síðari hluti Íslandsmótsins hefst í febrúar, að loknu hléi sem gert verður vegna Evrópumeistaramóts landsliða í Noregi í janúar. Sigurður hefur leikið 15 landsleiki og var í landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í Sviss fyrri tæpum tveimur árum.