Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur samið við þýska liðið Rhein-Neckar Löwe frá og með árinu 2009 en hann er samningsbundinn Gummersbach fram að þeim tíma. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Forráðamenn Rhein-Neckar Löwe hafa hug á því að kaupa Guðjón frá Gummersbach næsta sumar en eins og kunnugt er þjálfar Alfreð Gíslason lið Gummersbach og tveir aðrir íslenskir landsliðsmenn, Róbert Gunnarsson og Sverre Jakobsson, leika með liðinu. Guðjón er að jafna sig eftir aðgerð á öxl og hefur hann lítið leikið með Gummersbach á þessari leiktíð en hann verður líklega klár í slaginn með íslenska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu sem hefst í janúar í Noregi.