„Við erum fegnir að vera lausir við langt og erfitt ferðalag,“ segir Jón Eggert Hallsson, formaður handknattleiksdeildar Fram, en deildin hefur komist að samkomulagi við forráðamenn tyrkneska liðsins Ankara Özel Idare SK um að báðir leikir liðanna í 32 liða úrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik karla fari fram hér á landi um næstu helgi, 24. og 25. nóvember.
Ef samkomulag hefði ekki náðst átti fyrri viðureign liðanna að fara fram í Ankara í dag.
„Eftir að við náðum loks sambandi við forráðamenn tyrkneska liðsins gengu samningar hratt fyrir sig, en það var svolítið erfitt að ná sambandi við þá í upphafi,“ segir Jón Hallur.
Á þessari stundu vita Framarar lítið um hvers þeir mega vænta frá Ankara Özel Idare SK en vænta þess að geta orðið sér úti um upplýsingar umk liðið á næstu dögum í gegnum sambönd sem Ungverjinn Ferenc Buday, þjálfari Fram-liðsins, hefur þar í landi.
Özel Idare SK vann írskt og enskt lið mjög örugglega í forkeppni áskorendakeppninnar í haust en tapaði með fjögurra marka mun fyrir Minsk frá Hvíta-Rússlandi.