Rúnar Sigtryggsson, þjálfari karlaliðs Akureyrar í handknattleik, segir í samtali við heimsíðu handknattleiksliðs Akureyrar það vera sína skoðun að losa verði Akureyrarliðið undan Þór og KA og að stofnað verði sjálfstætt félag sem heyri beint undir Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA). Rúnar telur sameiningu handknattleiksliða Þórs og KA í meistaraflokki karla ekki hafa skilað þeim árangri sem til hafi verið ætlast, en það er nú á öðru starfsári sínu og er í næst neðsta sæti úrvalsdeildar karla, N1-deildarinnar. Akureyri tekur á móti HK í N1 deildinni í KA-heimilinu í kvöld klukkan 19. Með sigri getur Akureyrarliðið færst upp í 5. sæti deildarinnar en HK færist upp að hlið Hauka í efsta sæti farið það með sigur úr býtum.
Rúnar segir liða Akureyrar hafa veikst frá síðustu leiktíð, öfugt við það sem vonast var til með sameiningu KA og Þórs. Lesa má viðtalið við Rúnar á heimsíðu Akureyrarliðsins en í því kennir ýmissa grasa.