Júlíus: Við áttum meiri kraft eftir

Íslenska liðið hefur unnið þrjá leiki í röð í Litháen …
Íslenska liðið hefur unnið þrjá leiki í röð í Litháen eftir að hafa tapað þeim fyrsta. Hlynur Sigmarsson

Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, sagði að sitt lið hefði átt meiri kraft eftir en andstæðingarnir frá Bosníu og það hefði gert útslagið í leik liðanna í undankeppni EM í dag.

Ísland sigraði, 27:22, og er því líklega búið að tryggja sér þriðja sætið í riðlinum og sæti í umspili EM. Það er þó ekki endanlega á hreinu.

Júlíus sagði við fréttavef Morgunblaðsins að fyrir mót hefði forráðamönnum liðsins verið tjáð að markatala réði úrslitum ef lið yrðu jöfn. Það er hinsvegar ekki í samræmi við önnur mót í alþjóðlegum handknattleik þar sem innbyrðis úrslit viðkomandi liða ráða í slíkri stöðu.

 Hvort íslenska liðið sé komið áfram, er því ekki staðfest fyrr en úr þessu fæst skorið. Ef markatalan ræður þarf Bosnía að sigra Litháen á morgun til að eiga möguleika á að ná þriðja sætinu úr höndum Íslands.

Munurinn á markatölu Íslands og Bosníu er 14 mörk þannig að ef Bosnía vinnur Litháen með einu marki þarf Ísland að tapa með 13-14 mörkum fyrir Hvíta-Rússlandi til að missa Bosníu uppfyrir sig. Ef markatalan ræður þá á annað borð.

"Við fögnum þessvegna með fyrirvara en þetta er leikurinn sem við vissum að myndi ráða úrslitum. Eftir tapið gegn Litháen í fyrsta leiknum var markmiðið að koma okkur í þá stöðu fyrir þennan leik að hann yrði úrslitaleikur um að komast áfram og það gekk eftir," sagði Júlíus við fréttavef Morgunblaðsins.

Bosnía var yfir allan fyrri hálfleikinn, var þá með eins til þriggja marka forystu, og staðan var 12:11 að honum loknum, bosníska liðinu í hag. "Okkur gekk erfiðlega með sóknarleikinn í fyrri hálfleiknum. Lið Bosníu spilaði eins og við áttum von á, langar sóknir og reyndi að halda hraðanum niðri. Við náðum því ekki hraðaupphlaupum framan af en það fór að koma síðustu 5-10 mínúturnar í fyrri hálfleik þegar þreytu var farið að gæta hjá bosnísku leikmönnunum," sagði Júlíus.

Ísland jafnaði, 12:12, í byrjun síðari hálfleiks og náði undirtökunum í framhaldi af því. "Það var ákaflega mikilvægt að ná að jafna strax og við náðum betri tökum á leiknum eftir því sem leið á síðari hálfleik. Ég held að það hafi verið búið af tanknum hjá bosníska liðinu því það hefur notað færri leikmenn í mótinu en við. Það var því meiri kraftur eftir hjá okkur og það réði úrslitum.

Þetta var svolítið tvísýnt um tíma því við fengum á okkur nokkra brottrekstra á lokakaflanum. Við komumst í 23:17 en síðan var staðan 23:20 og þá vorum við manni færri. En okkur tókst að vinna okkur útúr því og auka muninn á ný.

Eftir að við komum hingað út og sáum styrk liðanna í fyrstu umferðinni var þriðja sætið okkar takmark og það er núna allavega innan seilingar," sagði Júlíus Jónasson.

Ísland mætir Hvíta-Rússlandi í lokaumferðinni á morgun og Bosnía leikur við Litháen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert