Ísland vann óvæntan sigur á Hvíta-Rússlandi, 31:30, í lokaumferð undankeppni EM kvenna í handknattleik í Litháen í dag. Bæði lið höfðu fyrir leikinn tryggt sér sæti í umspili Evrópukeppninnar, ásamt Litháen.
Ísland er nú í efsta sæti riðilsins með 8 stig, Litháen og Hvíta-Rússland eru með 7 stig, Bosnía 4 en Grikkland og Ísrael eru án stiga. Litháen mætir Bosníu í dag og tryggir sér sigur í riðlinum með jafntefli.
Frábær frammistaða íslensku kvennanna sem byrjuðu mótið á því að tapa með 16 marka mun fyrir Litháen, 19:35, en unnu síðan alla hina fjóra leikina og fara nú í umspil EM næsta vor þar sem leikið er heima og heiman við einhverja þjóð um sæti í lokakeppninni.
Fylgst var með leiknum í beinni lýsingu á vefnum www.handbolti.is.