Aganefnd HSÍ hefur úrskurðað Aðalstein Eyjólfsson, þjálfara kvennaliðs Stjörnunnar, í bann til 1. febrúar á næsta ári og til greiðslu 50.000 króna sektar vegna ummæla sem hann lét sér um munn fara í garð HSÍ, dómara og dómaranefndar HSÍ eftir viðureign Fram og Stjörnunnar í N1 deild kvenna í handknattleik á síðasta fimmtudag.
Þá var Einar Jónsson, þjálfari Fram, áminntur fyrir ummæli sín sem hann dró til baka á sunnudag. Aðalsteinn má því ekki stýra liði Íslandsmeistara Stjörnunnar í næstu fjórum leikjum sem fram fara í janúar en liðið leikur ekkert meira í þessum mánuði. Úrskurði Aganefndar HSÍ er ekki hægt að áfrýja nema úrskurður hennar nái yfir lengra tímabil en sex mánuði.
Aganefnd segir m.a. í úrskurði sínum að Aðalsteinn hafi m.a. í ummælum sínum vegið að æru dómara leiks Fram og Stjörnunnar jafnframt sem hann sakaði HSÍ og Dómaranefnd HSÍ um spillingu. „Það verður að teljast mjög alvarlegt þegar þjálfari fer slíkum orðum handknattleikshreyfinguna,“ segir m.a. orðrétt í úrskurði Aganefndar HSÍ.
Hægt er að lesa úrskurð Aganefndar á heimasíðu HSÍ.