Framarar færðust upp í annað sætið

Framarar færðust upp í annað sæti N1 deildar karla í handknattleik þegar þeir unnu Val, 27:25, á heimavelli Vals, Vodafone höllinni við Hlíðarenda. Þar með er Fram komið með 19, stig, er fjórum stigum á eftir Haukum en eiga leik til góða við Stjörnuna á miðvikudag.

Valur situr hinsvegar í 5. sæti með 15 stig en getur bætt tveimur stigum við í sarpinn leggi liðið HK á miðvikudagskvöld.

Ef undan eru skildar upphafsmínútur leiksins þá voru Framarar alltaf með forystu, m.a. tvö í hálfleik, 15:13. Í síðari hálfleik náði Fram mest fjögurra marka forskoti en Val lánaðist að minnka muninn í eitt mark, 25:24, þegar skammt var til leiksloka. Lengra komust þeir hins vegar ekki.

Rúnar Kárason og Björgvin Páll Gústavsson voru fremstir jafningja hjá Fram. Rúnar skoraði tíu mörk með sannkölluðum þrumufleygum og Björgvin varði um 20 skot í markinu.  Jóhann Gunnar Einarsson skoraði sjö mörk fyrir Fram og Einar Ingi Hrafnsson fjögur.

Hjalti Pálmason skoraði sjö mörk fyrir Val og var markahæstur. Næstur honum kom Sigfús Páll Sigfússon með 5 og Ernir Hrafn Arnarson gerði 4 mörk. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert