Valskonur sigruðu Stjörnuna, 30:25, í síðari undanúrslitaleiknum í deildabikar kvenna í handknattleik í Laugardalshöllinni í kvöld og mæta Fram í úrslitaleiknum á laugardaginn.
Stjarnan byrjaði betur og komst í 5:1 en Valur saxaði smám saman á forskotið og komst yfir í fyrsta skipti á 25. mínútu, 13:12. Síðan var 14:13 í hálfleik.
Valskonur komust í 19:13 en Stjarnan minnkaði muninn á ný og skömmu fyrir leikslok stóð 26:24. Valur gerði þá fjögur mörk í röð og gerði út um leikinn.
Ágústa Edda Björnsdóttir var atkvæðamest hjá Val með 6 mörk og Dagný Skúladóttir gerði 5. Alina Petrache skoraði 6 mörk fyrir Stjörnuna og Sólveig Lára Kjærnested gerði 5.
Fram vann Gróttu, 29:28, í fyrri undanúrslitaleiknum fyrr í kvöld.
Nánar um leikina í Morgunblaðinu á morgun.