Fram sigraði Hauka, 30:28, í úrslitaleiknum í deildabikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöllinni í dag. Útlit er fyrir að einu marki of mikið hafi verið skráð á Fram og það gæti haft eftirmál í för með sér.
Leikurinn var jafn lengi vel en Fram breytti stöðunni úr 8:8 í 15:9 og síðan var 18:14 í hálfleik. Tvö rauð spjöld fóru á loft í fyrri hálfleik, Gunnar Berg Viktorsson hjá Haukum var rekinn þrisvar af velli og Brjánn Bjarnason hjá Fram fékk útilokun fyrir gróft brot.
Í fyrri hálfleik virðist sem einu marki of mikið hafi verið skráð á Fram en um það voru allir fjölmiðlar sammála.
Fram náði að auka forskotið í 20:15 og síðan 22:18 en Haukar jöfnuðu, 23:23 og 25:25. Undir lokin þegar staðan var 29:28 fyrir Fram, samkvæmt dómurum leiksins, tóku Haukar þá áhættu að hleypa sóknarmanni Fram í gegn, enda var það þá þeirra eini möguleiki í leiknum, miðað við stöðuna. Framarar skoruðu og innsigluðu sigurinn, 30:28. Þarna virðist hinsvegar sem staðan hefði átt að vera 28:28 áður en síðasta markið kom og þá hefðu Haukar brugðist við á allt annan hátt í sínum varnarleik.
Jóhann Gunnar Einarsson gerði 7 mörk fyrir Fram og Andri Berg Haraldsson gerði 6 samkvæmt fjölmiðlum en 7 samkvæmt skráningu leiksins. Kári Kristjánsson gerði 9 mörk fyrir Hauka og Sigurbergur Sveinsson 7.