Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur ákveðið að senda sex leikmenn úr A-landsliðinu með B-landsliðinu til Noregs þar sem það leikur á föstudag, laugardag og sunnudag. Leikmennirnir eru Birkir Ívar Guðmundsson, Arnór Atlason, Einar Hólmgeirsson, Hannes Jón Jónsson, Sigfús Sigurðsson og Sigurbergur Sveinsson. Arnór verður aðeins með B-liðinu í tveimur leikjum í Noregi og kemur til Íslands á sunnudag.
B-landsliðið er skipað 22 leikmönnum og hafa þeir æft saman síðustu daga. Í kvöld verður tilkynnt hvaða 11 leikmenn úr þeim hópi fer til Noregs ásamt sex menningunum sem fyrr er getið. B-landsliðið leikur við A-lið Ungverja, Portúgala og Norðmanna á mótinu í Noregi um næstu helgi.
Arnór kemur heim á sunnudag til þess að leika með A-landsliðinu í tveimur leikjum við Tékka hér á landi á sunnudag og mánudag. Alfreð hefur jafnframt tilkynnt Sigurbergi að hann sé ekki inn í myndinni fyrir landsliðið sem heldur á Evrópumeistaramótið í Noregi 15. janúar. Þar með eru 18 leikmenn eftir í þeim hópi en líklegt verður að teljast að Alfreð taki 17 leikmenn með á Evrópumótið sem hefst 17. janúar með leik við Svíþjóð.