„Úrslitaleikur við Íslendinga“

Guðjón Valur Sigurðsson skorar gegn Tékkum.
Guðjón Valur Sigurðsson skorar gegn Tékkum. Ómar Óskarsson

„LEIKURINN við Íslendinga verður algjör lykilleikur fyrir sænska landsliðið á Evrópumótinu í handknattleik í Noregi. Ef sænska landsliðið á að ná árangri í mótinu verður það að fara með stig upp í milliriðilinn. Til þess verður það að leggja Ísland í fyrsta leik riðlakeppninnar,“ segir Claes Hellgen, fyrrverandi landsliðsmarkvörður sænska landsliðsins í samtali við TV4 í heimalandi sínu.

Hellgren telur alveg ljóst að Frakkar verði með sterkasta liðið í riðlinum og vinni alla þrjá leiki sína. Þá séu Slóvakar slakastir liða. „Milliriðlakeppnin verður erfið því þá koma væntanlega Þjóðverjar, Spánverjar og Ungverjar inn í myndina úr C-riðli. Fari sænska landsliðið upp í milliriðilinn án stiga verður erfitt fyrir það að ná langt og verðlaunasæti sennilega úr sögunni. Viðureignin við Ísland fyrsta keppnisdaginn er því algjör úrslitaleikur að mínu mati,“ segir Hellgren sem oft átti sína bestu landsleiki gegn Íslendingum þegar hann var upp á sitt besta á níunda áratug síðustu aldar.

Frábærir leikmenn – slök markvarsla

„Enginn vafi leikur á að íslenska landsliðið er á meðal sex til sjö bestu í heiminum um þessar mundir. Þjálfarinn Alfreð Gíslason er snjall í sínu starfi. Hann er fyrrverandi afreksmaður í handknattleik og veit svo sannarlega út á hvað íþróttin gengur. Innan raða liðsins eru tveir frábærir handknattleiksmenn; Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson. Ólafur hefur oft verið valinn í heimsliðið og það svo sannarlega ekki að ástæðulausu.

Veikleiki íslenska landsliðsins liggur í markvörslunni,“ segir Hellgren sem vonast til að sænska landsliðinu takist að ná a.m.k. sjötta sætinu á EM.

„Frakkar eru með frábært lið og ég hef trú á að þeir verði Evrópumeistarar á nýjan leik,“ segir Hellgren ennfremur.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert