Reiknað er með að minnsta kosti 500 Íslendingar verði á áhorfendapöllunum í Spektrum íþróttahöllinni í Þrándheimi þegar flautað verður til leiks Íslendinga og Svía í Evrópukeppninni í handknattleik karla. Í morgun kom Boeing 757 farþegaþota Icelandair fullskipuð Íslendingum frá Keflavík auk þess sem tvær Fokkervélar Flugfélags Íslands hafa einnig lent á flugvellinum í Værnes með Íslendinga, í báðum var hvert sæti skipað.
Vel á fjórða hundrað manns keyptu miða í gegnum íslenskar ferðaskrifstofur og Handknattleikssambands Íslands fyrir mótið. Ennfremur er vitað að vel á annað hundrað Íslendingar, hið minnsta, sem búa í Noregi, Svíþjóð og jafnvel í Danmörku er á leið, eða eru komnir til Þrándheims. Þeir hafa allir keypt miða sína á netinu.
Þegar er þess vart að Íslendingar eru komnir til Þrándheims. Á gönguferð blaðamanns Morgunblaðsins um miðbæ Þrándheims nú eftir hádegið mátti sjá íslenska fána við hótel auk þess sem nokkrir sáust á rölti með húfur og trefla merkta Íslandi. Stuðningsmenn íslenska landsliðsins áforma að hittast á veitingastaðnum Monte Cristo í Þrándheimi eftir um stundarfjórðung þar sem hitað verður upp fyrir leikinn. Síðan stendur til að fara í skrúðgöngu þaðan og í íþróttahöllina en þarna á milli er um stundarfjórðungs gangur.