Hinn reyndi sænski landsliðsmarkvörður í handknattleik, Tomas Svensson, segir Dani vera með besta handknattleikslið Norðurlanda í karlaflokki um þessar mundir. Því næst komi Íslendingar en síðan Norðmenn og Svíar. Svensson segir í samtali við Adresseavisen í Þrándheimi í dag Svíar renni nokkuð blint í sjóinn með getu síns liðs.
Kim Andersson, stórskytta Svía, segir við Adresseavisen, að leikurinn við Íslendinga í kvöld sé afar mikilvægur og það skipti öllu máli að byrja vel á stórmótum. Svensson segir Svía vera í nokkurri óvissu fyrir leikinn en vonast til að menn verði klárir í slaginn.
"Það skiptir miklu máli hjá okkur að vörnin og markvarslan verði góð. Þessi atriði geta ráðið úrslitum," segir Svensson sem væntanlega stendur vaktina í sænska markinu þegar flautað verður til leiks í kvöld í viðureign Íslendinga og Svía í Trondheim Spektrum.