Danir áttu ekki í vandræðum með Svartfjallaland á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í kvöld. Danir sigruðu, 32:24, en staðan í hálfleik var 18:9 fyrir Dani sem töpuðu naumlega gegn Norðmönnum í fyrsta leiknum í B-riðli í Drammen.
Svartfjallaland er með eitt stig líkt og Rússar í B-riðli en Norðmenn eru með 4 stig. Í lokaumferðinni eigast við Rússar og Danir annarsvegar og Norðmenn og Svartfellingar hinsvegar.
Alen Muratovic skoraði 9 mörk fyrir Svartfjallaland og Drasko Mrvaljevic var með 8 mörk. Í liði Dana voru þrír leikmenn sem skoruðu 5 mörk hver, Lars Rasmussen, Joachim Boldsen og Hans Lindberg.
Í A-riðli, sem fram fer í Stavanger, áttust við Pólland og Slóvenía. Pólverjar gerðu sér lítið fyrir og skoruðu 23 mörk í fyrri hálfleik en þeir bættu aðeins 10 mörkum við í þeim síðari og fögnuðu fimm marka sigri, 33:27.
Karol Bielecki skoraði 10 mörk fyrir Pólland úr aðeins 11 tilraunum. Tomasz Tluczynski klikkaði ekki á skoti í leiknum og skoraði hann alls 6 mörk fyrir Pólland. Ales Pajovic skoraði 7 mörk fyrir Slóveníu.
Króatía er efst í þessum riðli með 4 stig, Pólverjar og Slóvenar eru með 2 stig og Tékkar eru án stiga. Í lokaumferðinni mætast Pólland - Tékkland og Króatía - Slóvenía.