Stórsigur Norðmanna gegn Rússum

Frode Hagen skoraði 9 mörk gegn Rússum.
Frode Hagen skoraði 9 mörk gegn Rússum. SCANPIX

Norðmenn sýndu styrk sinn á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í kvöld með stórsigri gegn Rússum í Drammen í Noregi. Norðmenn voru 5 mörkum yfir í hálfleik, 15:10 og þeir héldu uppteknum hætti í þeim síðari og lönduðu 11 marka sigri, 32:21. Noregur er í efsta sæti B-riðils með 4 stig en liðið lagði Dani að velli í opnunarleiknum. 

Frode Hagen var markahæstur í liði heimamanna með 9 mörk. Andrey Starikh skoraði 5 mörk fyrir Rússa sem gerðu jafntefli, 25:25, gegn Svartfellingum í fyrsta leik. Steinar Ege markvörður Norðmanna fór á kostum í fyrri hálfleik þar sem hann varði alls 18 skot.

Í A-riðli hafði Króatía betur gegn Tékkum, 30:26. Jiri Vitek skoraði 7 mörk fyrir Tékka og Ivano Balic var með 6 mörk fyrir Króatíu. Króatar hafa unnið báða leikina á EM en þeir sigruðu Pólverja, 32:27, í fyrsta leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert