Íslendingar lögðu Slóvaka, 28:22, á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í dag en staðan í hálfleik var 16:5 fyrir Ísland. Leikurinn var í beinni textalýsingu á mbl.is.
„Getum ekkert í handbolta“
Alfreð Gíslason þjálfari íslenska liðsins sagði í viðtali við RÚV eftir leikinn að hann hefði verið ánægður með varnarleikinn og markvörsluna í fyrri hálfleik. „Við sýndum það í síðari hálfleik að við getum ekkert í handbolta ef við leikum ekki á fullum krafti,“ sagði þjálfarinn. Hann var vissulega ánægður með sigurinn en var strax farinn að huga að næsta verkefni gegn Frökkum á morgun.
„Við erum komnir í þá stöðu að geta farið með 2 stig í milliriðil með sigri gegn Frökkum. Það verður gríðarlega erfitt verkefni en ef menn leggja sig fram í vörninni eins og í dag þá er allt hægt.“
Skoruð mörk: Guðjón Valur Sigurðsson 7, Alexander Petersson 5,
Logi Geirsson 4, Róbert Gunnarsson 4, Snorri Steinn Guðjónsson 2,
Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Vignir Svavarsson 1, Einar Hólmgeirsson 1,
Hannes Jón Jónsson 1, Jaliesky Garcia 1.
Bjarni Fritzson kom inn í íslenska landsliðið
gegn Slóvökum. Hann kom í stað Ólafs Stefánssonar sem ásamt Sverre Jakobssyni
var ekki í 14 manna hópnum í dag.
Ólafur tognaði í aftanverðu hægra læri á dögunum og gerði tognunin enn frekar vart við sig í viðureigninni við Svía í fyrradag. Ólafur fór í myndatöku í gær og í ljós kom að vöðvinn er ekki rifinn eins og sumir höfðu óttast. Nær útilokað er talið að Ólafur taki þátt í viðureigninni við Frakka síðdegis á morgun, síðasta leik íslenska landsliðsins í riðlakeppninni.