Pólverjar: Norðmenn fá falleinkunn fyrir EM

Johnny Jensen leikmaður norska landsliðsins í baráttunnni gegn Drasko Mrvaljevic …
Johnny Jensen leikmaður norska landsliðsins í baráttunnni gegn Drasko Mrvaljevic sem er landsliðsmaður Svartfjallalands. SCANPIX

Pólverjar hafa hafið taugstríð sitt fyrir leikinn við Norðmenn í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Drammen í dag. Forsvarsmaður pólska handknattleikssambandsins gefur Norðmönnum falleinkunn í framkvæmd mótsins, a.m.k. í þeim hluta þess sem fram fór í Stavangri en þar léku Pólverjar í riðlakeppninni ásamt Króötum, Slóvenum og Tékkum.

Marek Skorupski, talsmaður pólska handknattleikssambandsins, segir í viðtali við dagblaðið VG í dag að framkvæmd riðlakeppninni hafi verið ómöguleg í Stavangri. Mótið hafi ekkert verið auglýst og þar af leiðandi hafi verið leikið fyrir nær tómu húsi í öllum leikjum. Matur á hótelinu sem handknattleiksmennirnir hafi búið hafi ekki verið bjóðandi og nærliggjandi skyndibitastaðir hafi haldið lífi í leikmönnum.  Þá hafi pólska liðið fengið mjög misvísandi upplýsingar um hvenær það ætti að vera klárt til brottfarar frá hóteli í leikina. Einnig nefnir hann að rúta sem átti að flytja fjölmiðlamenn frá þeirra hóteli að íþróttahöllinni og til baka aftur hafi ekki verið fyrir hendi nema endrum og sinnum og alls ekki farið eftir fyrirliggjandi tímaáætlun. Á sunnudag hafi keyrt um þverbak þegar rútan var ekkert á ferðinni.

Thorbjörn Hinna, sem situr í skipulagsnefnd í Stavangri, segir Pólverjana hafa nokkuð til síns mál. T.d. hafi hótelið alls ekki átt að bjóða upp á norska sérrétti fyrir handknattleiksmennina sem alls ekki séu vanir gömlum þjóðlegum norskum réttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert