Þurfum okkar besta dag gegn meisturunum

Íslenska landsliðið í gönguferð í Þrándheimi í gærkvöldi.
Íslenska landsliðið í gönguferð í Þrándheimi í gærkvöldi. mbl.is/Golli

„Flestir og helst allir leikmanna minna verða að eiga toppleik gegn Þjóðverjum til þess að eiga erindi í þá. Menn verða að leika af meiri aga og hraða í sókninni en hingað til auk fleiri atriða sem verða að vera í lagi,“ sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik, um væntanlega viðureign við Þjóðverja í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í dag.

Alfreð segir æfingu landsliðsins í gær hafa verið góða og gefi vonandi fyrirheit um að landsliðið reki af sér slyðruorðið þótt við ramman reip sé að draga gegn heimsmeisturunum.

Óhætt er að taka undir með Alfreð að meiri léttleiki var yfir æfingu landsliðsins í gær, sem stóð yfir í hálfa aðra stund, þótt vissulega væri unnið af alvöru og festu í því sem var á dagskrá.

„Að sjálfsögðu mun það hjálpa okkur mikið að Ólafur getur verið með í leiknum. Hann segist sjálfur vera orðinn nokkuð góður af meiðslunum og er bjartsýnn á að þetta gangi hjá sér. Á æfingunni núna stillti ég Alexander Petersson upp í stöðuna hans Ólafs og hafði Ólaf á miðjunni. Þennan kost æfðum við aðeins heima fyrir mótið og ég tel hann vera nokkuð sterkan fyrir okkur. Einar á líka möguleika með Ólafi á miðjunni.

En í heild er ég bjartsýnni nú eftir æfinguna en þegar ég vaknaði í morgun. Það styrkir okkur mikið að Ólafur skuli verða með,“ segir Alfreð.

Fáir veikleikar hjá Þjóðverjum

Örvhenta skyttan Holger Glandorf er framúrskarandi handknattleiksmaður, eins Pascal Hens á hægri vængnum. Hornamennirnir eru mjög góður og eins línumennirnir.

Vörnin hjá okkur verður að smella vel saman og haldast í takti við góða markvörslu ef við eigum að veita Þjóðverjum keppni. Við verðum að fá fimm til sjö hraðaupphlaup. Á þessari æfingu æfðum við meðal annars nýtt afbrigði af hraðri miðju sem vonandi getur komið á óvart og fært okkur nokkur mörk.

Síðan þarf sóknarleikurinn að vera miklum mun betri en í síðustu leikjum og skytturnar verða að skora eitt og eitt mark á milli.

Möguleikar okkar á mótinu eru ennþá fyrir hendi. Með tveimur sigrum í næstu þremur leikjum verða flest okkar vandmál gleymd. En það getur verið hægara sagt en gert að snúa leik okkar við á einni eða tveimur nóttum,“ sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert