Eftir stórsigurinn á Ungverjum í Þrándheimi í dag á íslenska landsliðið í handknattleik möguleika á því að leika um sjöunda sætið á Evrópumótinu.
Ísland mætir Spáni í lokaumferð milliriðilsins á morgun en liðin eru jöfn í tveimur neðstu sætunum með 2 stig hvort. Ungverjar eru með 3 stig og misstu með tapinu í kvöld af möguleikanum á því að komast í undanúrslit mótsins.
Á morgun mætast Ungverjaland og Frakkland, sem og Þýskaland og Svíþjóð. Ef Íslendingar ná jafntefli við Spánverja, ná þeir fjórða sætinu í riðlinum, svo framarlega sem Ungverjar tapa fyrir Frökkum. Verði Ísland, Spánn og Ungverjaland öll jöfn með 3 stig verður Ísland með besta útkomu í innbyrðis viðureignum þjóðanna.
Ef Ísland vinnur Spán og endar með 4 stig, þurfa Ungverjar að vinna Frakka til að koma í veg fyrir að Ísland nái fjórða sæti milliriðilsins og leiki þar með um 7. sætið á mótinu.
Sú staða gæti komið upp að Þýskaland, Ungverjaland og Ísland yrðu öll jöfn í þriðja til fimmta sæti með 4 stig hvert. Þá myndu Þjóðverjar enda í þriðja sæti á innbyrðis viðureignum og leika um 5. sætið en Íslendingar um 7. sætið.
Ekki er spilað um sæti níu til tólf þannig að ef Ísland tapar leiknum gegn Spáni á morgun er ljóst að þátttöku íslenska liðsins er lokið. Að öðrum kosti spilar það um 7. sætið í Lillehammer á sunnudaginn.