Stórsigur gegn Ungverjum á EM

Snorri Steinn Guðjónsson skorar eitt af sex mörkum sínum í …
Snorri Steinn Guðjónsson skorar eitt af sex mörkum sínum í fyrri hálfleik. Árvakur/Golli

Íslenska landsliðið í handknattleik gerði sér lítið fyrir og sigraði Ungverja með 8 marka mun á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í kvöld, 36:28. Staðan í hálfleik var 16:16. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 11 mörk fyrir Ísland og Hreiðar Guðmundsson fór á kostum í markinu. 

Eins og áður segir var jafnt í hálfleik, 16:16, og Íslendingar náðu að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum á 33. mínútu þegar Snorri Steinn kom Íslendingum í 18:17. Varnarleikur Íslands var mjög öflugur og markvarslan var í hæsta gæðaflokki. Hreiðar Guðmundsson varði gríðarlega vel eftir að hann kom inná fyrir Birki Guðmundsson. Hreiðar varði 15 skot og Birkir varði 9 skot. 

Leikurinn var  í beinni textalýsingu á mbl.is.

Eftir stórsigurinn á íslenska landsliðið möguleika á því að leika um sjöunda sætið á Evrópumótinu.

Ísland mætir Spáni í lokaumferð milliriðilsins á morgun en liðin eru jöfn í tveimur neðstu sætunum með 2 stig hvort. Ungverjar eru með 3 stig og misstu með tapinu í kvöld af möguleikanum á því að komast í undanúrslit mótsins.

Á morgun mætast Ungverjaland og Frakkland, sem og Þýskaland og Svíþjóð. Ef Íslendingar ná jafntefli við Spánverja, ná þeir fjórða sætinu í riðlinum, svo framarlega sem Ungverjar tapa fyrir Frökkum. Verði Ísland, Spánn og Ungverjaland öll jöfn með 3 stig verður Ísland með besta útkomu í innbyrðis viðureignum þjóðanna.

Ef Ísland vinnur Spán og endar með 4 stig, þurfa Ungverjar að vinna Frakka til að koma í veg fyrir að Ísland nái fjórða sæti milliriðilsins og leiki þar með um 7. sætið á mótinu.

Sú staða gæti komið upp að Þýskaland, Ungverjaland og Ísland yrðu öll jöfn í þriðja til fimmta sæti með 4 stig hvert. Þá myndu Þjóðverjar enda í þriðja sæti á innbyrðis viðureignum og leika um 5. sætið en Íslendingar um 7. sætið.

Ekki er spilað um sæti níu til tólf þannig að ef Ísland tapar leiknum gegn Spáni á morgun er ljóst að þátttöku íslenska liðsins er lokið. Að öðrum kosti spilar það um 7. sætið í Lillehammer á sunnudaginn.

Staðan í riðlinum:

1. Frakkland  8 stig

2. Svíþjóð 5 stig

3. Þýskaland 4 stig

4. Ungverjaland 3 stig

5. Spánn   2 stig

6. Ísland    2 stig

Bein textalýsing

Skoruð mörk

Snorri Steinn Guðjónsson 11

Guðjón Valur Sigurðsson 6

Róbert Gunnarsson 5
Ólafur Stefánsson 5
Alexander Petersson 4
Hannes Jón Jónsson 2
Logi Geirsson 2
Ásgeir Örn Hallgrímsson 1

---

Skoruð mörk

Tamás Mocsai 6
László Nagy 5
Balázs Laluska 4
Tamás Iváncsik 3
Gergö Iváncsik 2
Ferenc Ilyés 2
Gábor Császár 2
Szabolcs Zubai 1
Gyula Gál 1
Nikola Eklemovics 1
Szabolcs Törö 1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert