Svíar skelltu Spáni á síðustu sekúndu

Johan Petersson og félagar í sænska liðinu geta komist í …
Johan Petersson og félagar í sænska liðinu geta komist í undanúrslit. Reuters

Svíar lögðu Spánverja að velli, 27:26, í milliriðli 2 á Evrópumótinu í handknattleik í Þrándheimi í dag. Jonas Källman skoraði sigurmarkið úr hraðaupphlaupi einni sekúndu fyrir leikslok.

Með þessum úrslitum eru Spánverjar úr leik í baráttunni um verðlaunasæti en þeir urðu að vinna til að eiga möguleika á að komast í undanúrslitin. Staðan í riðlinum er nú sú að Frakkar eru með 6 stig, Svíar 5, Þjóðverjar 4, Ungverjar 3, Spánverjar 2 og Íslendingar eru án stiga. Á eftir mætast Þýskaland og Frakkland og lokaleikur dagsins í riðlinum er svo Ísland - Ungverjaland kl. 19.15.

Leikur Svía og Spánverja var æsispennandi. Eftir að Spánverjar höfðu verið yfir lengi vel komust Svíar í 26:24 seint í leiknum. Spánverjar jöfnuðu, 26:26, þegar enn voru þrjár og hálf mínúta eftir. Svíar voru í upplagðri stöðu, manni fleiri og fengu vítakast mínútu fyrir leikslok en José Hombrados varði frá Kim Andersson.

Þegar 8 sekúndur voru eftir fengu Spánverjar aukakast og gátu tryggt sér sigurinn. Tomas Svensson varði skot þeirra og kastaði boltanum fram þar sem Källman sendi hann í tómt mark Spánverja, 27:26.

Källman skoraði 8 mörk fyrir Svía í leiknum, Martin Boquist 5 og Dalibor Doder 4. Hjá Spánverjum var Juan García með 8 mörk og þeir Rubén Garabaya og Iker Romero gerðu 4 mörk hvor.

Leikskýrslan.

Íslendingar mæta Spánverjum í síðustu umferð milliriðilsins á morgun kl. 14.20. Takist íslenska liðinu að vinna Ungverja í kvöld gæti það orðið úrslitaleikur um að komast í eitt af átta efstu sætum keppninnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert