Danir tryggðu sér í dag sigur í milliriðli 1 og sæti í undanúrslitum Evrópukeppninnar í handknattleik í Noregi þegar þeir sigruðu Slóvena örugglega, 28:23.
Þetta var hreinn úrslitaleikur þjóðanna um sæti í undanúrslitunum. Danir náðu undirtökunum snemma, voru 15:11 yfir í hálfleik og voru ekki í vandræðum með að innbyrða sigurinn eftir það.
Slóvenar hefðu með sigri getað komist í undanúrslit mótsins en tapið þýðir hinsvegar að þeir verða í 9. til 10. sætinu.
Danir eru með 8 stig, Króatar 6, Norðmenn 5, Pólverjar 5, Slóvenar 4 og Svartfellingar ekkert stig. Leikur Króata og Norðmanna hefst kl. 19.15 og er hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitunum. Þar nægir Króötum jafntefli.
Lars Christiansen skoraði 8 mörk fyrir Dani í dag og Lasse Boesen 6 en hjá Slóvenum var Jure Natek markahæstur með 5 mörk.