EM: Sjö marka tap gegn Spánverjum

Guðjón Valur í baráttunni gegn Spánverjum í Þrándheimi í dag.
Guðjón Valur í baráttunni gegn Spánverjum í Þrándheimi í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ísland tapaði með sjö marka mun gegn Spánverjum á Evrópumeistaramótinu í handknattleik, 33:26, en staðan í hálfleik var 18:15. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 7 mörk fyrir Ísland líkt og  Snorri Steinn Guðjónsson. Leikurinn var í beinni textalýsingu á mbl.is.

Liðin voru bæði með 2 stig fyrir lokaumferðina. Einar Hólmgeirsson var kallaður inn í liðið  fyrir Sigfús Sigurðsson sem er meiddur.

Birkir Ívar Guðmundsson varði 4 skot og Hreiðar Guðmundsson varði 8 skot og þar af 1 vítakast.

Skoruð mörk: Guðjón Valur Sigurðsson 7, Snorri Steinn Guðjónsson 7, Logi Geirsson 3, Vignir Svavarsson 2, Róbert Gunnarsson 2, Einar Hólmgeirsson 2, Ólafur Stefánsson 2, Alexander Petersson 1.


Bein textalýsing.

Ísland gæti  hreppt sæti í forkeppni Ólympíuleikanna, þrátt fyrir að leikurinn gegn Spánverjum í Þrándheimi hafi farið á versta veg.

Ef niðurstaðan úr milliriðlunum verður sú að Danir og Króatar fari áfram úr 1. riðli og Frakkar og Þjóðverjar úr 2. riðli, væri sæti Íslendinga í forkeppninni tryggt. 

Ísland var einu sæti frá því að komast í forkeppnina með árangri sínum í úrslitakeppni HM í Þýskalandi fyrir ári síðan. Þá endaði Ísland í 8. sæti en liðin í 2.-7. sæti tryggðu sér þátttökurétt í forkeppninni. Það voru Pólland, Danmörk, Frakkland, Króatía, Rússland og Spánn.

Verði undanúrslitaliðin öll úr þeim hópi er ljóst að eitt þeirra verður Evrópumeistari og þá mun 8. sætið á HM í fyrra gulltryggja Íslandi þátttökurétt í forkeppninni í vor.

Þjóðverjar eru þegar komnir á Ólympíuleikana sem heimsmeistarar. Þangað komast líka Evrópumeistararnir sem krýndir verða í Lillehammer á sunnudaginn, eða liðið sem endar í öðru sæti ef Þýskaland verður líka Evrópumeistari.

Næstu sex Evrópulið (2-7 eða 8 á HM) fara í forkeppnina, ásamt tveimur efstu af þeim sem ekki eru komin áfram, og fjórum liðum frá öðrum heimsálfum.

Til að þetta gangi eftir þurfa Þjóðverjar að sigra Svía, Króatar mega ekki tapa fyrir Norðmönnum og Danir mega ekki tapa fyrir Slóvenum. Ef Svíar, Norðmenn eða Slóvenar komast í undanúrslit þarf íslenska liðið að bíða niðurstöðunnar þar.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert