„Loksins tókst okkur að leika almennilegan leik í 60 mínútur og það tók okkur margar æfingar í dag fyrir þennan,“ sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik, eftir sigur landsliðsins á Ungverjum í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Þrándheimi í gær, 36:28.
„Ég er afar stoltur af liðinu hvernig það kom til baka í dag. Þessi tími hér í Þrándheimi hefur verið ömurlegur fyrir okkur alla sem í liðinu erum. Fyrir leikinn sagði ég við strákana að það væri ekki til nein afsökun fyrir að hafa ekki leikið heilsteyptari leiki á mótinu. Ég sagði við þá að lið sem getur leikið góðan leik í hálftíma getur vel leikið góðan heilan leik, hvað sem öllum meiðslum og annarri óáran líður. Það er ekkert til að skýla sér á bakvið. Leikurinn var hreint út sagt mjög góður og sjálfstraust leikmanna jókst smátt og smátt eftir því sem á leikinn leið,“ sagði Alfreð og gat þess jafnframt að hluti skýrningarinnar á hægum leik gegn Þjóðverjum hefði verið sá að Ólafur Stefánsson hefði verið að leita eftir því hvort lærvöðinn myndi þola álagið eftir tognunina sem hélt honum frá keppni gegn Slóvökum og Frökkum. „Þegar Ólafur fann að vöðvinn hélt þá lét hann slag standa í dag,“ sagði Alfreð.
„Vörnin var mjög góð og Hreiðar Guðmundsson átti frábæran dag í markinu. Í sókninni skipti engu máli hvort Ungverjar stilltu upp fimm einn vörn eða sex núll, við lékum okkur alltaf í dauðafæri. Spurningin framan af var bara að nýta færin betur.
Leikurinn var bara mjög góður. Mikilll agi í sóknarleiknum, þolinmæði, auk þess sem boltinn gekk hratt milli manna. Um leið sköpuðust færin sem við nýttum okkur til að skora hvert markið á fætur öðru.
Ég er virkilega stoltur af strákunum í dag,“ sagði Alfreð og bætti því einnig við að jákvætt hefði verið að sjá að menn létu það ekki slá sig út af laginu framan af þótt nokkur upplögð marktækifæri hefðu ekki alltaf nýst sem skyldi.