Þýskaland tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik í Noregi með því að sigra Svíþjóð, 31:29, í síðasta leiknum í milliriðli 2 sem fram fór í Þrándheimi.
Það er því ljóst að Þjóðverjar mæta Dönum í undanúrslitum mótsins en Svíar spila um fimmta sætið við Norðmenn, Króata eða Pólverja.
Svíum nægði jafntefli og þeir voru yfir lengi vel, 18:16 í hálfleik, en í seinni hálfleik skiptust liðin á um forystuna. Þjóðverjar komust í 30:27 skömmu fyrir leikslok, Svíar minnkuðu muninn í 30:29, en Markus Baur innsiglaði þýskan sigur, 31:29, með marki þremur sekúndum fyrir leikslok.
Pascal Hens og Holger Glandorf gerðu 7 mörk hvor fyrir Þjóðverja en Kim Andersson gerði 9 mörk fyrir Svía og Martin Boquist 6.