Svíar verða mótherjar Íslendinga í forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í Póllandi í vor en þeir sigruðu Norðmenn, 36:34, í tvíframlengdum leik um 5. sætið á HM í Lillehammer í Noregi í dag.
Riðillinn verður þá skipaður Póllandi, Íslandi, Svíþjóð og Argentínu en tvö efstu liðin komast á Ólympíuleikana í Peking. Með sigrinum tryggðu Svíar sér ennfremur sæti í lokakeppni HM í Króatíu á næsta ári en Norðmenn þurfa að fara í umspil eins og Íslendingar og fleiri þjóðir.
Leikurinn í dag var sveiflukenndur. Jafnræði var í fyrri hálfleik en Svíar gerðu tvö síðustu mörk hans og voru yfir í hléi, 15:13. Þeir bættu um betur og komust í 19:13 og 21:14 og virtust stefna í öruggan sigur. En Norðmenn áttu frábæran endasprett, minnkuðu muninn í 23:22 og svo jafnaði Kjetil Strand, 26:26, þegar 3 mínútur voru eftir og meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma.
Í fyrri framlengingu var jafnt á öllum tölum og Bjarthe Myrhol jafnaði þar fyrir Noreg, 30:30, þegar hálf önnur mínúta var eftir. Í seinni framlengingunni komust Svíar í 32:30 og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Marcus Ahlm innsiglaði sigurinn, 36:34, með marki 13 sekúndum fyrir leikslok.
Þeir Martin Boquist og Jonas Källman skoruðu 7 mörk hvor fyrir Svía og Kim Andersson, Marcus Ahlm og Jonas Larholm gerðu 5 mörk hver. Hjá Norðmönnum var Kjetil Strand atkvæðamestur með 10 mörk og Bjarthe Myrhol gerði 7 mörk.