Valur og Fram mætast í úrslitum Eimskipsbikarkeppninnar í handknattleik karla en Valur hafði betur gegn Víkingum, 38:32, í tvíframlengdum leik í Víkinni. Víkingar, sem leika í næst efstu deild, náðu að jafna í 30:30 á lokasekúndum fyrri framlengingarinnar en liðið gaf eftir í síðari framlengingunni.
Baldvin Þorsteinsson skoraði 10 mörk fyrir Val og Arnór Þór Gunnarsson var með 7 mörk. Í liði Víkings var Ásbjörn Stefánsson með 10 mörk og Þórir Júlíusson skoraði 7.
Þórir jafnaði metin á lokasekúndum í fyrri framlengingunni en staðan var 25:25, að loknum venjulegum leiktíma en Víkingar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14.12.
Þórir Júlíusson leikmaður Víkings tók aukakast þegar venjulegum leiktíma var lokið en skot hans hafnaði í stönginni.
Valsmenn voru fjórum mörkum undir, 14:10, þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.