HSÍ ræðir við Geir

Geir Sveinsson svarar HSÍ jafnvel strax í dag.
Geir Sveinsson svarar HSÍ jafnvel strax í dag. Árvakur/Kristinn Ingvarsson

Stjórn Handknattleikssambands Íslands horfir nú til Geirs Sveinssonar sem væntanlegs landsliðsþjálfara karla í handknattleik eftir að Dagur Sigurðsson afþakkaði starfið í fyrradag.

Heimildir Morgunblaðsins herma að Geir hafi hitt stjórnendur HSÍ á fundi í gær þar sem kannaður var hugur hans til starfsins. Sömu heimildir herma einnig að Geir muni gefa svar fjótlega, jafnvel strax í dag.

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, er ekki inni í myndinni nú um stundir, enda mun það vera stefna formanns HSÍ, Guðmundar Ágústs Ingvarssonar, að ræða aðeins við einn þjálfara í einu.

Aron sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði ekkert heyrt frá HSÍ eftir að Dagur gaf afsvar sitt í fyrradag. „Ég hef ekkert leitt hugann að þessu starfi og hélt í raun að Dagur myndi taka það að sér,“ sagði Aron sem tók við þjálfun Hauka á síðasta sumri eftir að hafa þjálfað um nokkurra ára skeið danska úrvalsdeildarliðið Skjern. Aron sagðist skynja stöðuna þannig að Geir væri næstur á lista hjá HSÍ á eftir Degi.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem HSÍ ræðir við Geir Sveinsson um starf landsliðsþjálfara karla. Við hann var einnig rætt áður en Viggó Sigurðsson var ráðinn til starfans haustið 2004. Þá varð Viggó fyrir valinu þrátt fyrir að til væru aðilar innan HSÍ sem vildu fremur ráða Geir. Í framhaldinu var reynt að fá Geir til að vera aðstoðarmaður Viggós en samningar þess efnis tókust ekki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert