„Vissulega er það slæmt að þessir tveir hæfu menn, Dagur Sigurðsson og Geir Sveinsson, vilja ekki taka að sér landsliðsþjálfarastarfið. En við höldum okkar vinnu áfram, það eru fleiri fiskar í sjónum," sagði Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, (HSÍ), spurður um þá stöðu sem upp væri komin eftir að Geir Sveinsson afþakkaði boð HSÍ um að taka að sér starf landsliðsþjálfara Íslands í handknattleik karla.
Geir er í raun þriðji maðurinn sem afþakkar starfið því áður en Dagur gaf sitt svar í síðustu viku hafði Svíinn Magnus Andersson afþakkað starfið en hann bundinn krefjandi starfi hjá danska handknattleiksliðinu FCK í Kaupmannahöfn.
„Við erum ekki neinni tímapressu við að leita að nýjum þjálfara og höldum okkar starfi áfram. En ég viðurkenni að ákvörðun Geirs er okkur vonbrigði,“ sagði Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður HSÍ, og vildi ekkert segja hvert yrði næst skref stjórnar HSÍ í málinu, við hvern yrði rætt næst. Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, hefur verið nefndur til sögunnar en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.