Aron Kristjánsson, þjálfari karlaliðs Hauka í handknattleik, hefur rætt við stjórnendur HSÍ um að taka að sér starf landsliðsþjálfara. Aron staðfesti við fréttavef Morgunblaðsins að hafa hitt stjórnendur HSÍ í gær. Heimildir Morgunblaðsins herma að Geir Sveinsson hafi svarað HSÍ neitandi gærmorgun um að taka landsliðsþjálfarastarfið að sér þótt það hafi ekki verið opinberað fyrr en í dag.
„Ég get staðfest að hafa hitt forráðamenn HSÍ. Þeir spurðu mig um áhuga minn fyrir landsliðsþjálfarastarfinu. Ég hef ekki svarað þeim ennþá en ætla ekki að gefa mér langan tíma til að ákveða hvort ég ræði dýpra við þá um starfið eða hvort ég gef það frá mér," sagði Aron í samtali við mbl.is rétt áðan. Hann vildi að öðru leyti ekki ræða málið á þessu stigi.