Akureyri og Haukar gerðu í kvöld jafntefli, 27:27, í úrvalsdeild karla í handknattleik, N1-deildinni, en leikur liðanna fór fram í KA-heimilinu á Akureyri.
Akureyringar náðu forystunni í byrjun og breyttu stöðunni úr 3:2 í 8:3 og síðan 10:4. Haukar minnkuðu muninn í 10:8 en Akureyringar gerðu þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks, 13:8.
Munurinn hélst frameftir síðari hálfleik og staðan var 20:15 fyrir Akureyri um hann miðjan. Þá fóru Haukar að saxa á forskotið og komust yfir í fyrsta skipti, 24:25, skömmu fyrir leikslok. Akureyringar svöruðu með þremur mörkum, 27:25, en Halldór Ingólfsson skoraði jöfnunarmark Hauka 30 sekúndum fyrir leikslok.
Akureyringar fengu tækifæri til að tryggja sér sigurinn en misstu boltann 5 sekúndum fyrir leikslok. Það var of seint fyrir Hauka til að komast í sókn.
Goran Gusic skoraði 7 mörk fyrir Akureyri og Hörður Fannar Sigþórsson 5, og þá varði Sveinbjörn Pétursson 21 skot í marki liðsins. Gunnar Berg Viktorsson skoraði 8 mörk fyrir Hauka og Halldór Ingólfsson 7.
Sjá nánari umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.
Haukar eru nú með þriggja stiga forystu í deildinni, eru með 26 stig, en Valur og Fram koma næst með 23 stig og Fram á leik til góða. Akureyri er áfram í 6. sætinu og er með 12 stig, fimm stigum meira en Afturelding sem er í fallsæti deildarinnar.