Viggó kominn heim á 100 ára afmælisári Fram

Viggó Sigurðsson.
Viggó Sigurðsson. mbl.is/Jim Smart

Viggó Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í handknattleik, tekur við karlaliði Fram í handknattleik eftir þetta keppnistímabil. Viggó tekur við starfi Ungverjans Ferenc Buday er samningur hans rennur út í sumar. Viggó hefur skrifað undir tveggja ára samning, til sumarsins 2010. „Það er fram undan spennandi verkefni hjá mér. Framarar eru með góðan leikmannahóp og handknattleiksdeildinni hjá Fram er vel stjórnað,“ sagði Viggó í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Þess má geta til gamans að Viggó hóf handknattleiksferil sinn hjá Fram á árum áður og lék með fjórða og þriðja flokki hjá Fram áður en hann gekk til liðs við Víking. Það má því segja að Viggó sé kominn heim á 100 ára afmælisári Fram.

Framarar ræddu við Viggó fyrir þetta keppnistímabil og vildu fá hann sem þjálfara. Viggó var þá ekki tilbúinn að festa sig við þjálfun á þeim tímapunkti.

Viggó, sem lék á árum áður með Víkingi, Barcelona á Spáni, Bayer Leverkusen í Þýskalandi og með íslenska landsliðinu, hefur þjálfað FH, Stjörnuna og Hauka, 21 árs landsliðið, Wuppertal og Flensburg í Þýskalandi og hann var landsliðsþjálfari 2004–2006. Landsliðið lék þá sextán landsleiki í röð undir hans stjórn án taps, sem er met.

Leikmönnum Fram var tilkynnt um ráðningu Viggós í kaffisamsæti eftir leik þeirra gegn Aftureldingu í Safamýrinni í gærkvöldi.

Viggó er annar landsliðsþjálfarinn sem tekur við þjálfun Fram eftir landsliðsþjálfarastarfið. Guðmundur Þórður Guðmundsson tók við Framliðinu 2005 og undir hans stjórn urðu Framarar Íslandsmeistarar 2006 – fögnuðu þá sínum fyrsta meistaratitli í 34 ár.

Nánar er fjallað um „heimkomu“  Viggós í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert