Öruggur sigur hjá toppliði Hauka

Andri Stefan skoraði 11 mörk fyrir Hauka í kvöld.
Andri Stefan skoraði 11 mörk fyrir Hauka í kvöld. mbl.is/Þorkell

Haukar unnu öruggan sigur á Aftureldingu, 32:26, í N1 deild karla í handknattleik að Varmá í kvöld og juku um leið forskot sitt í efsta sæti upp í sex stig þegar átta umferðir eru eftir því að á sama tíma tapaði Fram fyrir HK en Fram var fjórum stigum á eftir Hafnarfjarðarliðinu fyrir leiki kvöldsins.

Leikurinn í Varmá í kvöld var nokkuð jafn fyrsta stundarfjórðunginn en eftir hann tóku Haukar öll völd og voru komnir með sex marka forskot þegar fyrri hálfleikur var á enda, 18:12.

Í síðari hálfleik lék aldrei vafi á hvorum megin sigurinn hafnaði. Haukar náðu mest átta marka forskoti, 22:14, sem Mosfellingum tókst að minnka niður í fjögur mörk um tíma. Lengra komust þeir ekki og Haukar unnu verðskuldaðan sex marka sigur.

Andri Stefán átti stórleik í liði Hauka og skoraði 11 mörk. Önnur mörk Hauka skoruðu: Gísli Jón Þórisson 5, Jón Karl Björnsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 4, Elías Már Halldórsson 2, Freyr Brynjarsson 2, Arnar Jón Agnarsson 1, Sigurbergur Sveinsson 1, Gunnar Berg Viktorsson 1, Pétur Pálsson 1.

Gísli Guðmundsson varði 11 skot, þar af 1 víti í marki Hauka og Magnús Sigmundsson varði 4 skot.

Mörk Aftureldingar: Daníel Jónsson 6, Haukur Sigurvinsson 5, Ingimar Jónsson 5, Magnús Einarsson 3, Davíð Georgsson 2, Einar Örn Guðmundsson 1, Hrafn Ingvarsson 1, Ásgeir Jónsson 1, Jóhann Jóhannsson 1, Jón Andri Helgason 1.

Davíð Svansson varði 17 skot í marki Aftureldingar og Oliver Kiss 6.

Nánar er fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun og rætt við Aron Kristjánsson þjálfara Hauka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert