Austurríska landsliðið í handknattleik, undir stjórn Dags Sigurðssonar, vann í kvöld mjög óvæntan sigur á heimsmeistaraliði Þýskalands, 32:30, á alþjóðlegu móti í Innsbruck í Austurríki.
Þjóðverjar voru yfir í hálfleik, 18:14, en austurríska liðið sneri blaðinu við í seinni hálfleiknum. Í gær stóðu Austurríkismenn uppi í hárinu á Svíum og töpuðu naumlega, 26:30, eftir jafnan leik.
Roland Schlinger skoraði 8 mörk fyrir Austurríki og Robert Weber 7. Hjá Þjóðverjum var Florian Kehrmann atkvæðamestur með 10 mörk og þeir Martin Strobel og Uwe Gensheimer gerðu 5 mörk hvor.
Fyrr í dag vann Svíþjóð öruggan sigur á Túnis, 37:28, á sama móti og er í efsta sæti með 4 stig. Þýskaland og Austurríki eru með 2 stig en Túnis ekkert. Á morgun leika Svíþjóð og Þýskaland og austurríska liðið mætir Túnis.