Svíar, sem mæta Íslendingum í vor í undankeppni Ólympíuleikanna, unnu stórsigur á sterku liði Túnis, 37:28, á alþjóðlegu handknattleiksmóti í Innsbruck í dag.
Svíar voru með undirtökin frá byrjun, komust í 6:1 og voru 17:13 yfir í hálfleik. Þeir komust fljótlega í 22:14 og Túnisbúar áttu ekki möguleika eftir það.
Hinn fertugi Peter Gentzel átti stórleik í sænska markinu í fyrri hálfleik og Per Sandström í þeim síðari. Jonas Larholm skoraði 10 mörk fyrir Svía, Sebastian Seifert 5 og þeir Henrik Lundström og Jonas Källström gerðu 4 mörk hvor.
Stórskyttan Wissem Hmam var í sérflokki hjá Túnis og skoraði 12 mörk.