Svíar sigruðu Þjóðverja, 26:20, í síðasta leiknum á alþjóðlega handknattleiksmótinu í Innsbruck í Austurríki í dag og stóðu uppi sem sigurvegarar. Austurríkismenn, undir stjórn Dags Sigurðssonar, komu mjög á óvart og enduðu í öðru sæti mótsins.
Leikurinn í dag var hreinn úrslitaleikur en þýsku heimsmeistararnir hefðu unnið mótið ef þeir hefðu náð að sigra með þriggja marka mun. Það var aldrei inni í myndinni því Svíar komust í 10:2 og voru með örugga forystu í hálfleik, 14:8. Þjóðverjar minnkuðu muninn í 22:18 en komust ekki nær.
Henrik Lundström skoraði 6 mörk fyrir Svía, Jan Lennartsson 4, Kim Andersson 3, Robert Arrhenius 3 og Jonas Källmann 3. Hjá Þjóðverjum var Holger Glandorf atkvæðamestur með 7 mörk.
Austurríki vann Túnis fyrr í dag, 37:32, eins og áður hefur komið fram.
Svíþjóð fékk 6 stig, Austurríki 4, Þýskaland 2 en Túnis tapaði öllum sínum leikjum.
Ísland mætir Svíþjóð, Póllandi og Argentínu í forkeppni Ólympíuleikanna í Póllandi í lok maí en tvær efstu þjóðir riðilsins komast á ÓL í Peking. Svíar sýndu á þessu móti að þeir verða geysilega erfiðir andstæðingar í Póllandi.