Vilja vernda leikmennina

Alfreð Gíslason þjálfari Gummersbach og Guðjón Valur Sigurðsson.
Alfreð Gíslason þjálfari Gummersbach og Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/ÞÖK

Forráðamenn stærstu handknattleiksliða Evrópu sem standa að G14-samtökunum og fulltrúar frá handknattleikssambandi Evrópu, EHF, funduðu um sl. helgi í Þýskalandi. Þar var farið yfir stöðu mála hvað varðar fjölda stórmóta og tímasetningar á þeim. Þær hugmyndir sem hafa verið viðraðar ganga út á það að færa Evrópumeistaramótið fram á vorið og að heimsmeistaramótið verði haldið á fjögurra ára fresti en ekki tveggja ára fresti. Mikið álag á leikmenn er áhyggjuefni stórliða Evrópu og vilja þau vernda hagsmuni leikmanna sinna.

Stóru liðin í Evrópu vilja vernda leikmenn sína með þessum breytingum þar sem álagið sé of mikið eins og fyrirkomulagið er í dag. Á þessu ári eru tvö stórmót á dagskrá, Evrópumeistaramótið sem fram fór í Noregi í janúar og í ágúst eru Ólympíuleikarnir í Peking í Kína. Heimsmeistaramótið fer síðan fram í janúar á næsta ári í Króatíu. Á rúmlega 12 mánuðum geta sumir leikmenn því farið í gegnum þrjú stórmót.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, sagði í gær að margar hugmyndir hefðu verið viðraðar á undanförnum misserum. Hann telur að EHF vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir það sem gerðist í körfuknattleikshreyfingunni í Evrópu fyrir nokkrum árum. Þar klufu stærstu félagsliðin sig úr körfuknattleikssambandi Evrópu og stofnuðu eigin Meistaradeild, ULEB-meistaradeildina.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka