Aron Kristjánsson, þjálfari Íslandsmeistaraliðs Hauka í handknattleik, hafði fyrir ári mun meiri áhyggjur af gangi mála í íslenskum handbolta en hann hefur í dag. Aron lék með Skjern í Danmörku um þriggja ára skeið en hann sneri aftur til Íslands og lék með Haukum í tvö ár fram til vorsins 2003. Þá tók Aron að sér þjálfarastarfið hjá Skjern og þar starfaði hann fram til vors á síðasta ári.
Haukar fengu Íslandsmeistarabikarinn afhentan á heimavelli á laugardag og er þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill liðsins undir stjórn Arons. „Að mínu mati er bjartara yfir handboltanum í dag en fyrir ári. Satt best að segja hafði ég miklar áhyggjur af stöðunni þegar ég byrjaði að vinna í fyrrasumar. Staðan er betri núna. Íslenskir leikmenn eru að koma inn í deildina eftir dvöl erlendis og ég held að næsta tímabil verði skemmtilegra en í ár,“ segir Aron Kristjánsson.
Aron á langan feril að baki sem leikmaður með Haukum, Skjern í Danmörku og íslenska landsliðinu. Hann kynntist handboltaíþróttinni frekar seint miðað við marga aðra en hann stundaði fótbolta, körfubolta og frjálsíþróttir í Stykkishólmi áður en hann valdi handboltann 14 ára gamall – þá nýfluttur í Hafnarfjörðinn. „Það voru strákar í bekknum mínum að æfa handbolta og ég ákvað að fara á æfingu og prófa. Ég fann að þessi íþrótt átti vel við mig auk þess sem mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Eftir það varð ekki aftur snúið.“
Mikið hefur verið rætt um keppnisfyrirkomulagið í handboltanum en alls eru 15 lið í tveimur deildum í karlaflokki, 8 lið í efstu deild og 7 lið í 1. deild. Aron er á þeirri skoðun að gera þurfi breytingar á keppnisfyrirkomulaginu fyrir næstu leiktíð.
„Mér finnst það ekki vera hentugt keppnisfyrirkomulag að vera með 8 liða deild og enga úrslitakeppni. Á sínum tíma var þetta fyrirkomulag valið vegna þeirra aðstæðna sem voru komnar upp. Menn vildu prófa þetta því að á þeim tíma var aðeins ein deild. Það var alltaf markmiðið að liðunum í næstefstu deild myndi fjölga við þessa breytingu og þau þyrftu ekki að leika við bestu lið landsins í efstu deild. Ég skil vel að þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma og það er nauðsynlegt að hafa í það minnsta tvær deildir í karlaflokki og enn betra væri að hafa þær fleiri.“
Ítarlegt viðtal er við Aron í íþróttablaði Morgunblaðisins í dag.