Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, gaf formlega út um helgina að Grænland væri fullgildur aðili að Handknattleikssambandi Ameríku, PATHF, og hefði þar með fullan rétt til þess áfram að komast í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins sem fulltrúi Ameríku.
PATHF hafði áður ákveðið að útiloka Grænlendinga frá keppni í sínum mótum en þeir hafa verið með í þeim frá aldamótum og ítrekað komist í úrslitakeppni HM, m.a. á kostnað Bandaríkjamanna. Grænland er sem kunnugt er ekki sjálfstætt ríki, heldur undir lögsögu Danmerkur, en hefur verið viðurkenndur aðili að IHF um nokkurt skeið.
„Réttlætinu er fullnægt og ég tel að afstaða IHF sé sú eina rétta. Þetta var pólitík af verstu tegund. Þjóðirnar sem við höfum sigrað hvað eftir annað í forkeppni síðustu árin voru ósáttar við að komast ekki á HM eins og þær höfðu gert um árabil,“ sagði Jacob Larsen, landsliðsmaður Grænlands og leikmaður danska liðsins GOG, við TV 2 í Danmörku.