Pavla og Heimir leikmenn ársins hjá HSÍ

Verðlaunahafar á lokahófi HSÍ í kvöld á Broadway í Reykjavík.
Verðlaunahafar á lokahófi HSÍ í kvöld á Broadway í Reykjavík. mbl.is/Golli

Pavla Nevarilova línumaður úr kvennaliði Fram og Heimir Örn Árnason leikmaður Stjörnunnar eru handknattleikskona – og maður ársins 2008 í N1-deildinni. Kjörinu var lýst á lokahófi Handknattleikssambands Íslands á Broadway. Stella Sigurðardóttir úr Fram og Ólafur Bjarki Ragnarsson úr HK eru efnilegustu leikmenn deildarinnar.

Aron Kristjánsson þjálfari Íslandsmeistaraliðs Hauka er þjálfari ársins í karlaflokki en Einar Jónsson þjálfari Fram er þjálfari ársins í kvennaflokki.

Úrvalslið í öllum deildum voru valin og er karlaliðið þannig skipað: Markvörður; Egidijus Petkevicius (HK), línumaður Einar Ingi Hrafnsson (Fram), vinstra horn, Baldvin Þorsteinsson (Valur), hægra horn Arnór Þór Gunnarsson (Valur), vinstri skytta Sigurbergur Sveinsson (Haukar), hægri skytta Rúnar Kárason (Fram) og miðjumaður Andri Stefan Guðrúnarson (Haukar). Forráðamenn Hauka fengu viðurkenningu fyrir bestu umgjörðina í karlaflokki og Valur í kvennaflokki.

Úrvalslið N1-deildar kvenna er þannig skipað: Markvörður Florentina Stanciu (Stjarnan), línumaður Pavla Nevarilova (Fram), vinstra horn Dagný Skúladóttir (Valur), vinstri skytta Alina Petrache (Stjarnan), hægra horn Sólveig Lára Kjærnested (Stjarnan), hægri skytta Stella Sigurðardóttir (Fram), miðjumaður Eva Barna (Valur).

Hanna Guðrún Stefánsdóttir úr Haukum og Heimir Örn Árnason úr Stjörnunni fengu háttvísisverðlaun HSÍ.  Forráðamenn Selfoss fengu unglingabikar HSÍ  og Gunnar Berg Viktorsson úr Haukum fékk Valdimarsbikarinn en það er bikar sem niðjar Valdimars Sveinbjörnssonar gáfu og afhenda skal handknattleiksmanni sem skarað hefur fram úr í efstu deild karla.

Heimir Örn og Natalia Cieplowska úr HK voru markahæst á leiktíðinni en Natalia skoraði 156 mörk og Heimir var með 169 mörk. Pavla Nevarilova úr Fram og Arnar Péturson úr Íslandsmeistaraliði Hauka eru bestu varnarmenn keppnistímabilsins. Besti sóknarmaðurinn kemur einnig úr Haukum, Andri Stefan Guðrúnarson og í kvennaflokknum er Eva Barna úr Val besti sóknarleikmaðurinn.

Ólafur Haukur Gíslason úr Val og Florentina Stanciu úr Íslands og bikarmeistaraliði Stjörnunnar eru bestu markverðirnir í vetur.  

Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson fengu einnig viðurkenningur sem dómarar ársins 2008.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir næst efstu deild karla, 1. Deild. Þar fékk FH-ingurinn Aron Pálmarsson mikið hrós en hann var valinn besti og efnilegasti leikmaðurinn auk þess að vera  og sóknarmaður deildarinnar. Guðmundur Þórir Pedersen úr FH var markahæstur með 152 mörk. Víkingurinn Sveinn Þorgeirsson er varnarmaður ársins og félagi hans úr Víking, Björn Viðar Björnsson, er markmaður ársins í 1. deild. Reynir Þór Reynisson er þjálfari ársins í 1. deild en hann stýrði liðinu upp í efstu deild en FH sigraði í 1. deild.

Pavla Nevarilova í baráttu við varnarmenn Akureyrar.
Pavla Nevarilova í baráttu við varnarmenn Akureyrar. mbl.is/Brynjar Gauti
Heimir Örn Árnason.
Heimir Örn Árnason. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert