Ólafur Stefánsson átti stórleik í dag þegar Ciudad Real tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í handbolta með ótrúlegum 31:25- sigri á útivelli gegn Kiel í Þýskalandi í síðari leik liðanna. Kiel vann fyrri leikinn á Spáni 29:27 og var róðurinn því þungur fyrir Ciudad Real. Ólafur skoraði 12 mörk og var íslenski landsliðsmaðurinn óstöðvandi í sóknarleiknum.
Þetta er í annað sinn sem Ólafur sigrar í Meistaradeild Evrópu með Ciudad Real en hann hefur einnig orðið Evrópumeistari með Magdeburg í Þýskalandi.
Ólafur var markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar en hann skoraði 96 mörk en annar í röðinni var Kiril Lazarov úr Zagreb.
Arpad Sterbik markvörður Ciudad Real var frábær í leiknum, og varði hann alls 24 skti, og lagði hann grunninn að sigrinum ásamt Ólafi. Undir lok leiksins sauð upp úr á milli leikmanna og var gert hlé á leiknum á meðan. Leikmenn slógust og áhorfendur tóku einnig þátt í þeim slagsmálum.
David Davis og Siarhei Rutenka léku ekki með Ciudad Real í dag vegna meiðsla líkt og Petar Metlicic. Línumaðurinn sterki Rolando Urios lék ekki margar mínútur í úrslitaleiknum í dag en hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu.