Það eru margir handknattleiksáhugamenn sem kannast við sænska landsliðsmarkvörðinn Claes Hellgren en hann gerði garðinn frægan á árunum 1980-1990. Hellgren hefur komist að samkomulagi við Handknattleikssamband Íslands um að halda fjögur námskeið hér á landi fyrir íslenska markverði og þjálfara.
Fyrsta námskeiðið fer fram á laugardag í Digranesi í Kópvogi og segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, að mikill áhugi sé fyrir þessum námskeiðum.
„Hellgren hefur gríðarlega reynslu og „bjó“ m.a. til Tomas Svensson sem hefur oft farið illa með íslenska landsliðið. Það er markmiðið að þessi námskeið verði til sem kennsluefni í framtíðinni og við erum ekki að tjalda til einnar nætur í þessum efnum,“ sagði Einar.