Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði í tvígang fyrir Spánverjum en þjóðirnar áttust við í tveimur æfingaleikjum á Spáni um helgina. Í fyrri leiknum sem háður var í Cordoba urðu úrslitin 34:31 og í gær unnu Spánverjarnir með tveggja marka mun, 37:35, en í báðum leikunum voru Íslendingar með yfirhöndina í hálfleik.
Liðið hélt til Magdeburg í Þýskalandi í gær en þar mun það dvelja við æfingar fram að leikjunum í undankeppni Ólympíuleikanna en Ísland mætir Póllandi, Argentínu og Svíþjóð um tvö laus sæti á ÓL og fer keppnin fram í Póllandi.
,,Við vorum ansi nálægt því að vinna í dag eins og í fyrri leiknum. Það má segja að leikirnir hafi þróast á svipaða vegu. Sóknarleikurinn gekk vel í báðum leikjunum en við áttum í basli í varnarleiknum í dag. Það er engin skömm að tapa fyrir afar sterku spænsku liði á heimavelli þess og í þokkabót með spænskum dómurum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari við Morgunblaðið í gær.