„Við erum allir tilbúnir til að leggja allt á okkur til að komast á Ólympíuleikana. Það verður ekkert væl og enginn aumingjaskapur í gangi,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, við fréttavef Morgunblaðsins í Wroclaw en þar leikur Ísland gegn Argentínu í undankeppni Ólympíuleikanna í dag.
Guðjón glímdi við slæm meiðsli í vetur en er orðinn nokkurn veginn heill heilsu og hefur spilað á fullu með Gummersbach undanfarnar vikur. „Já, þetta er allt að smella saman núna. Ég hef aðallega þurft að breyta mínum æfingum, sem ég geri sjálfur, í samræmi við meiðslin og það hefur gengið þolanlega. Ég er tilbúinn til að spila í 60 mínútur, þrjá daga í röð, ef með þarf,“ sagði Guðjón Valur sem er vanur slíku álagi á stórmótum, enda yfirleitt sá leikmaður Íslands sem mest spilar í hverri keppni.
Hefði mátt vera frídagur á milli leikja
Guðjón sagði að það væri á margan hátt skemmtilegt að fara í gegnum hraðmót eins og þetta í Wroclaw. „Þetta er reyndar nýtt fyrir okkur, venjulega höfum við komist áfram á annan hátt. Það sem ég er reyndar óhress með er að við skulum vera látnir spila þrjá daga í röð, tveimur vikum eftir að við lukum okkar deildakeppni. Það hefði mátt spila með eins dags fríum á milli leikja til að ná að hvíla aðeins á milli leikja.
Síðan þegar þessum leikjum lýkur kemur HM-umspilið gegn Makedóníu, og það er engan veginn í hausnum á mönnum sem stendur. Ef við náum að tryggja okkur inná Ólympíuleikana, þá verður ærið verkefni að rífa sig upp til að spila svo allt annað mót, um sæti í keppni sem fer fram löngu síðar.
En þetta er sett svona upp, eftir langt og strangt tímabil sem hefur í raun staðið síðan 15. Júlí í fyrra. En maður er tilbúinn til að sleppa sumarfríinu til að komast á Ólympíuleika. Ég hef upplifað það einu sinni áður og það er hreint ótrúlegt. Það er algjör hápunktur á ferli íþróttamanns að komast þangað og vonandi tekst okkur það aftur.“
Pólverjar mesta stórskotalið heims
Guðjón Valur sagði að menn færu ekki í grafgötur með að allir mótherjarnir í Wroclaw yrðu afar erfiðir viðureignar. „Við erum búnir að fara vel yfir Svía og Pólverja og hvernig þessi lið spila en við höfðum mun minni upplýsingar um Argentínumennina til að vinna úr. En þeir hafa í gegnum tíðina komið sterkir inn í fyrstu leikjum á stórmótum, við skulum ekki gleyma því að þeir unnu Króata í fyrsta leik á HM í Portúgal fyrir fimm árum og Pólverjar og Þjóðverjar voru lengi í ströggli með þá á HM í fyrra. Þetta eru villtir gæjar sem gefa allt í leikina en þetta er einfaldlega leikur sem við verðum að vinna.
Um Pólverja þarf í raun ekki að segja mikið, þeir eru með mesta stórskotalið í heimi. Það er ekkert lið með aðrar eins skyttur. Allir sem leika fyrir utan geta spilað og skotið, það er í raun bara happa og glappa að velja rétta vörn á móti þeim eða einfaldlega treysta á að þeir eigi ekki góðan dag. Ef sótt er að þeim færa þeir sig bara 1-2 metrum utar á völlinn og skjóta fastar á markið.
Svíarnir eru betur spilandi en þetta eru þrjár mjög ólíkar þjóðir sem við mætum. Sérstaklega Svíar og Pólverjar, sem eru frábær handboltalið.“
Getum gert hvað sem er
Guðjón Valur sagði að íslensku leikmennirnir væru eins vel undirbúnir fyrir átökin í Wroclaw og kostur væri. „Mér líst vel á okkur, við höfum æft vel undanfarnar tvær vikur og leikirnir á Spáni voru flottir. Við áttum sérstaklega að vinna fyrri leikinn, áttum reyndar í erfiðleikum með línumennina hjá þeim en náðum frábærum hraðaupphlaupum og frábærum sóknum. Ef við náum að halda því og bæta aðeins í vörnina, held ég að við getum gert hvað sem er.
Þetta er hálfgert hraðmót, og við höfum undirbúið okkur mest fyrir leikina gegn Pólverjum og Svíum. Vissulega getur það verið hættulegt, því við getum ekki leyft okkur neitt vanmat gagnvart Argentínu. Þessar tvær vikur þurftum við að einbeita okkur að því að búa okkur undir alla þessa andstæðinga, það var einfaldlega of lítill tími að fara að hugsa um Pólverja og Svía eftir leikinn við Argentínu.“
Ekki að hugsa um flutninga eða sumarfrí
Það eru tímamót hjá Guðjóni Val í sumar því hann yfirgefur Gummersbach og gengur til liðs við stjörnum prýtt lið Rhein-Neckar Löwen. Flutningarnir eru hinsvegar honum ekki ofarlega í huga þessa dagana.
„Blessaður vertu, það er langt í það, ég geri það bara einhvern tíma. Ef við komumst á Ólympíuleikana held ég að jörðin gleypi mig í tvo til þrjá daga þar á eftir. Ég er svo langt frá því að fara að skipuleggja flutning eða sumarfrí, það er nógur tími síðar.“
Lið RN Löwen hét áður Kronau-Östringen og æfir í borginni Kronau, skammt frá Heidelberg. „Við munum búa þar mitt á milli en síðan eru heimaleikirnir spilaðir í höll í Mannheim, sem myndar þríhyrning við hina tvo staðina og var einn af keppnisstöðunum á HM í Þýskalandi á síðasta ári. Bæði Rhein-Neckar Löwen og íshokkíliðið Mannheim Adlers spila í þessari höll.“
Fjórir Pólverjanna með Löwen
Margir væntanlegra samherja Guðjóns Vals hjá Rhein-Neckar Löwen eru einmitt staddir í Wroclaw þessa dagana því fjórir landsliðsmenn Pólverja eru í liðinu, þeir Marcin Lijewski, Grzegorz Tkaczyk, Mariusz Jurasik og markvörðurinn Slawomir Smal.
„Já, þeir eru allir í byrjunarliðinu og lykilmenn hjá Löwen. Ef allt gengur upp og bæði við og Pólverjar fara á Ólympíuleikana, og Þjóðverjar líka, með Henning Fritz og Oliver Roggisch, þá verður nánast allt lið Löwen í Peking. Svo er líka fyrrum línumaður Þjóðverja, Christian Schwarzer, hjá félaginu.“
Guðjón Valur tók undir það að lið Löwen hefði burði til að ná langt næsta vetur. „En það verður að taka tillit til þess að það eru margir nýir leikmenn að koma og liðið er að þróast. Löwen er enn dálítið á eftir Kiel og Hamburg, sem verða bæði með svakaleg lið næsta vetur, á meðan Flensburg er að missa menn. Hjá okkur gæti þetta smollið, þegar litið er yfir leikmannahópinn er vel hægt að segja að það ætti að vera hægt að ná langt, en menn verða að taka með í reikninginn að það er langt og strangt sumar eftir.
Sumir leikmanna liðsins verða á Ólympíuleikunum og spurningin er hvernig menn koma þaðan, í andlegu og líkamlegu ástandi, og koma beint inní níu mánaða keppnistímabil. Það getur verið erfitt að setja sér stór markmið strax. En við erum vissulega með hóp sem ætti að geta stefnt á að komast í hóp þriggja efstu liðanna og ná langt í Evrópukeppni, ef um eðlilegan undirbúning væri að ræða,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson.